VOR Í VAGLASKÓGI

Tímasetningar VORS Í VAGLASKÓGI laugardaginn 26.júlí 2025 kl. 14:00 -  23:15

SÉRSTAKIR KYNNAR HÁTÍÐARINNAR:

Hraðfréttamennirnir BENEDIKT VALSSON og FANNAR SVEINSSON.

DOCTOR VIKTOR

Kl. 14:00

Læknirinn DOCTOR VIKTOR,  líknarinn og plötusnúðurinn ástsæli, er sérstakur tónlistarstjóri tónlistarveislunnar VORS Í VAGLASKÓGI og slær tóninn með sögulegum tilvitnunum í rjómatoppa íslenskrar tónlistar síðustu 99 ára.

KALEO

Kl. 15:00

Gestgjafarnir og gleðigjafarnir ástsælu, KALEO úr Mosfellssveit, opna sjálft tónleikahaldið langþráða með sérstakri „unplugged “ tónleikadagskrá í varðeldastíl. Félagarnir JÖKULL, DAVÍÐ, DANÍEL og RUBIN standa nú á hátindi ótrúlega farsæls og ævintýralegs ferils. Kassagítarar, bongótrommur, gærur, munnhörpur, melódikkur, harmonikkur og fjöldasöngur mun tryggja ógleymanlegt opnunaratriði á VORI í VAGLASKÓGI!

SIGRÚN STELLA

Kl. 16:00

Söngvaskáldið dulúðuga sem sló í gegn með laginu SIDEWAYS. SIGRÚN STELLA er fædd og uppalin á Akureyri, flutti til Winnipeg með foreldrunum ung að aldri og býr nú í Torontó á vetrum og Akureyri á sumrin. Einstök listakona sem hljómar líkt og alist hefði upp við fótskör Johnny Cash.

SVAVAR KNÚTUR

Kl. 16:40

SVAVAR VÍÐFÖRLI væri réttnefni á þessum frábæra söngvara, hljóðfæraleikara, ljóða- og lagahöfundi sem gert hefur Akureyri að heimabæ sínum obbann af þessari öld þó Ástralía,Ameríka, Evrópa og Asía kjósi ítrekað að fá að deila gæðunum með höfuðstað Norðurlands. SVAVAR KNÚTUR er engum líkur!

SOFFÍA BJÖRG

Kl. 17:15

Borgfirska heimasætan af bökkum Grímsár sem  "Dreymir um að fara í bæinn og dansa fram á nótt" líkt og amma hennar SOFFÍA KARLS  gerði - og söng um forðum. Hún starfar reglubundið með listafólki á við PÉTUR BEN og FRÍÐU DÍS en sú síðarnefnda mun koma fram með SOFFÍU BJÖRGU sem fulltrúi lágtíðninnar í Vaglaskógi á þessum tónleikum.

BEAR THE ANT

Kl. 18:00

Þessi óvenjulega sækadelíska hljómsveit var einkum stofnuð til að standa vörð um geðheilsu landsmanna í faraldrinum og þá ekki síst þeirra hljómsveitar mannanna sjálfra, BJÖRNS ÓLA HARÐARSONAR og DAVÍÐS ANTONSSONAR sem munu njóta atfylgis frábærra, ungra og skapandi tónlistarmanna á þessum fyrstu alvöru skógar tónleikum sínum í Vaglaskógi. Þetta verður eitthvað!

JACK MAGNET

Kl. 18:50

Enn annar Norðlendingur stígur hér á svið. JAKOB FRÍMANN, uppalinn á Akureyri frá unga aldri kallar ekki allt ömmu sína þó amma hans, Borghildur Jónsdóttir, hafi verið hans nánasti sálufélagi á uppvaxtarárunum nyrðra og hvatt hann til tónleikahalds í stofunni heima. Afburðamennirnir EINAR SCHEVING slagverks tröll og RÓBERT ÞÓRHALLSSON bössuður eru sjaldnast langt undan þegar JACK MAGNET er að mæta. Hér kynnu að verða til harla spunakennd skógarævintýri.

JÚNÍUS MEYVANT 

Kl. 19:30

Ein allra fegursta söngrödd Íslands og sú sem víðast hljómar í námunda við KALEO sem hafa kosið að gera JÚNÍUS MEYVANT að meðreiðarsveini sínum yfir lönd og höf á undanförnum árum. JÚNÍUS er innfæddur og strangtrúaður, en afar spaugsamur Vestmannaeyingur sem syngur með sálinni og semur lög sem sannarlega hrífa bæði hal og sprund. Topp maður!

HJÁLMAR

Kl. 20:10

Þessi afar sérstæða eftirlæti hljómsveit KALEO hlýtur þann heiðurssess að hita ærlega upp áhorfendaskarann í Vaglaskógi áður en Mosfellingarnir víðfrægu stíga sjálfir á stokk. Fremsta reggae hljómsveit í Norðvestur Evrópu er tvímælalaust HJÁLMAR, sveit með mikla sérstöðu, skartandi tveimur afburða söngvurum, frábærum hljóðfæraleikurum og einum farsælasta upptökustjóra Íslands um árabil, sé miðað við fjölda útvarpssmella. HJÁLMAR eru einstaklega heillandi og dáleiðandi hljómsveit sem smellpassar í Vaglaskóg og hvers lykilmenn gætu allir sem einn verið verið eingetin afkvæmi hvors sem væri .....Bob Marley eða Ingimars Eydal.

KALEO

Kl. 21:00

Hér er komið að hápunkti kvöldsins - alþjóðlegu stórsveitinni sem boðaði til þessara heitustu og langþráðustu tónleika ársins. Sigurganga KALEO um heimsbyggðina er með algjörum ólíkindum en þó svo verðskulduð að Íslendingar hreinlega dýrka þessa flottu og framsæknu tónlistarmenn sína sem aldrei láta deigan síga og túra heiminn endalaust. Gítarleikarinn RUBIN POLLOCK, trymbillinn DAVÍÐ ANTONSSON, bassaleikarinn DANÍEL Æ. KRISTJÁNSSON og síðast en ekki síst aðalhöfundurinn,söngvarinn og gítarleikarinn JÖKULL JÚLÍUSSON hafa byggt um fylgi og aðdáendaskara sem fært hefur þeim einhverja allra mest útbreiddu og leiknu tónlist sem Ísland getur státað af. 

Lagið Way Down We Go hefur verið spilað meira en 2,5 milljarð skipta á tónlistarveitum og fyrsti smellur KALEO á Íslandi er auðvitað bæði innblásturinn að tónlistarveislunni miklu sem allt snýst hér um - einnig heitið á mest leikna íslenska lagi á íslensku sem samið hefur verið frá upphafi vega:

Upplifðu lífið, tónlistina og fegurðina með öðrum, en vertu umfram allt og ævinlega  með sjálfum þér í Vaglaskógi!

Góða skemmtun! 

Fyrir hönd tónleikahaldara og þeirra að tónleikunum koma.

MELODY MAN